Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 69 . mál.


Ed.

671. Nefndarálit



um frv. til l. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frá meiri hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund um málið Hrafnhildi Stefánsdóttur frá VSÍ, Sigmund Stefánsson frá BHM, Birgi Björn Sigurjónsson og Pál Halldórsson frá BHMR, Hansínu Stefánsdóttur frá ASÍ og Margréti Ríkharðsdóttur frá BSRB.
    Meiri hl. mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
     Við 13. og 16. gr. Breytingarnar við þessar greinar eru til þess að undirstrika að þær aðgerðir, sem Jafnréttisráð og jafnréttisnefndir hafa frumkvæði að til þess að bæta stöðu kvenna, hljóti að vera sérstakar tímabundnar aðgerðir.
     Við 14. gr. Lagt er til að í stað þess að sagt sé í greininni að félagsmálaráðherra fari með jafnréttismál kvenna og karla fari hann með framkvæmd laganna. Þykir það heppilegra orðalag.
     Við 18. gr. Nefndin telur rétt að heimild til að skipa jafnréttisráðgjafa sé bundin við einn slíkan ráðgjafa.
     Við 19. gr. Gerð er breyting á skipan kærunefndar jafnréttismála og jafnframt er nefndarmönnum er fjölgað úr þremur í fimm. Sem áður er gert ráð fyrir að Hæstiréttur skipi formann nefndarinnar. Í stað fulltrúa Kvenréttindafélags Íslands telur nefndin rétt að komi fulltrúi skipaður af félagsmálaráðherra og skipar félagsmálaráðherra þá tvo nefndarmanna. Þá telur nefndin eðlilegt að fulltrúar stærstu heildarsamtaka launþega og atvinnurekenda, þ.e. ASÍ og VSÍ, eigi aðild að nefndinni. Jafnframt er kveðið á um að þegar kæruefni varðar aðra aðila vinnumarkaðarins en sæti eiga í nefndinni skuli leitað umsagnar þeirra samtaka sem hlutaðeigandi eiga aðild að.
     Við 22. gr. Í greininni er kveðið á um skaðabótaskyldur þeirra er brjóta gegn lögunum. Nefndin leggur til að í stað orðsins „gáleysi“ komi „vanrækslu“ sem telja verður eðlilegra orðalag.

Alþingi, 14. febr. 1991.



Margrét Frímannsdóttir,


form., frsm.

Guðmundur H. Garðarsson,


fundaskr.

Karl Steinar Guðnason.


Salome Þorkelsdóttir.

Jón Helgason.

Jóhann Einvarðsson.